Svakalegt ef það gýs víða á bergganginum
23.8.2014 | 11:10
Þetta land okkar er ótrúlegt. Það eru jarðfræðilega nokkur sekúndubrot frá Skaftáreldum og móðuharðindum. Til fróðleiks eru þessar upplýsingar fengnar að láni af vísindavefnum.
Skaftáreldar eru með frægustu eldgosum á Íslandi. Þann 8. júní 1783 hófst gos í Lakagígum í Vestur-Skaftafellssýslu og stóð það fram í febrúar 1784. Í þessu gosi kom upp mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni síðasta árþúsundið. Heildarrúmál hraunsins er um 12 km3 og flatarmál þess 580 km2.
Gosinu fylgdu aska og eiturefni sem bárust um allt land og skildu eftir sig sviðna jörð. Veturinn á eftir var líka harður. Allt þetta leiddi til mikilla hörmunga. Heyfengur var lítill, skepnur féllu bæði úr hor og vegna sjúkdóma sem fylgdu eiturefnunum úr gjóskunni og hungursneyð varð meðal fólks. Talið að sauðfé hafi fækkað um allt að 80%, hrossum um 60% og nautgripum um 50%. Þessar hörmungar, sem kallaðar hafa verið Móðuharðindin, stóðu yfir til ársins 1785 og kostuðu meira en 10.000 manns (rúmlega 20% þjóðarinnar) lífið.
25 km berggangur undir Dyngjujökli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Að við skulum eiga þessa sögu skráða er sko aldeilis að koma okkur vel núna í undirbúningi og viðbrögðum.
Við Íslendingar eigum frábærar Landsbjörgunarsveitir og Almannavarnir ásamt öllum hinum, Ríkislögreglu Slökkviðsmönnum og þar eftir götu.
Sá undirbúningur sem búinn er að eiga sér stað vegna hugsanlega umbrota gerist ekki betri tel ég.
Kv.góð
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 23.8.2014 kl. 12:03
Sviðsmyndin sem þú vísar til er einmitt það sem ég óttast mest við þessa atburði sem eru að gerast í Bárðarbungu.
Berggangurinn sem hefur myndast er sagður 25 km langur. Ef það kemur sprungugos upp úr þessu eins og í Skaftáreldum þá er munurinn samt sá, að það verður undir jökli og mætti því búast við miklu meiri sprengivirkni eins og þekkist úr síðustu tveimur gosum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum.
Annar möguleiki er gos hefjist í sjálfri Bárðarbunguöskjunni, sem er næstum jafn stór og sjálf Katla. Þess vegna er ekki ofsögum sagt að Bárðarbunga geti mögulega verið eitt hættulegasta eldfjall landsins.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.8.2014 kl. 12:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.