Færsluflokkur: Lífstíll
Eldgos sem kann að skrifa fréttir!
29.8.2014 | 10:59
Þetta varð til þess að ég fór mér til gamans að snúa ljósmyndum og skoða þær þannig. Viti menn. Sumar þeirra eru miklu forvitnilegri þannig eins og þessi, sem fylgir með þessari frétt en ég hef laumast til að skella hér inn upp á hlið. Engu er líkara en gígaröðin hafi ákveðið að skrifa fyrirsögnina Eldgos. Mætti ég fá að sjá næstu gíga takk.
Eldgos hafið norðan Dyngjujökuls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Logandi standa í langri röð
29.8.2014 | 09:10
Ómar Ragnarsson vitnaði í morgun í hið þekkta kvæði Jóns Helgasonar, Áfanga.
Þar er einmitt sagt frá hinni löngu sprungu þar sem gígarnir standa í röð og lýsa líkt og kerti í næturmyrkrinu. Í kvæði Jóns kveður þó við annan tón, því hann er að lýsa gosi í Lakagígum. Ómar segir hins vegar að þetta sé fallegt að sjá úr lofti og engan óróa var að finna í honum sjálfum. Vonandi gengur þessum einstaka unnanda íslenskrar náttúru vel, en hann frestaði læknisaðgerð um daginn til að vera á tánum.
Íslensk náttúra stendur í mikilli þakkarskuld við Ómar fyrir alla þættina hans um Ísland og einstaka baráttu uppi á hálendinu og í Gálgahrauni.
Takk Ómar Ragnarsson
Almannavarnastig á neyðarstig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er engin ástæða að óttast
28.8.2014 | 16:47
Nú verð ég að játa að ég er skræfa þegar náttúruöflin eru annars vegar. Ég verð skíthræddur þegar 40 km göng full af kviku eru enn að lengjast. Ég verð ennþá hræddari þegar ég les að heilu landsvæðin hafi þeyst upp í loft, þegar kvika frá einni eldstöð kom inn á svæði annarrar. Það er svona ein og hálf öld síðan það varð í Öskju, sem eru auðvitað sekúndubrot á tímamæli heimsins.
Mér léttir ekki hætishót þótt spekingar segi að engin bráðavá sé tengd sigkötlum. Víst er bráðavá þarna fyrir norðan og svo miklu miklu stærri en menn órar fyrir. Ég dáist hins vegar að konu sem var viðtal við í hádeginu. Aðspurð sagði hún að hún vissi hreinlega ekki hvað væri að gerast.
Engin bráðavá tengd sigkötlunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30000000 m3 af vatni horfin og landið á ferð og flugi
28.8.2014 | 09:06
Skil þetta alls ekki sagði Vatnar jarðfræðingur. Þrjátíu milljón rúmmetrar af vatni hafa ekki komið fram. Vissulega veldur þetta mér kvíða. Nú svo eru þessar sprungur að koma fram langt í burtu frá kvikuhlaupinu svo maður veit ekkert hvort þetta vatn ætlar norður eða suður. Ja, og á meðan ég man þá veit maður ekkert hvort hraunið ætlar til Öskju eða bara koma upp um Bárðarbungu eða í Dyngjujökli.
Mestar áhyggjur hef ég þó af því að Veðurstofan virðist hafa haft rétt fyrir sér að það hafi orðið gos og það þykir mér sýnu verst sagði Vatnar því þeir hafa ekki eins flott háskólapróf og ég. Hvur dj. nú hefur landið gliðnað um 40 cm á 5 dögum. Er nú landið á fullri ferð líka?
Óróasvæðið breiðir úr sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef einhver tekur tappann úr!
27.8.2014 | 15:51
Þetta er svosem alveg eins og við bjuggumst við sagði váfræðingurinn í morgun. Nú menn sem hafa verið að spá því að jarðskjálftar stafi af því að glóandi kvika ryðjist í gegnum göng sem eru 1 metri á breidd og 40 km. löng þeir hafa auðvitað rangt fyrir sér. Slíkt rennsli er áreynslulaust og engin ástæða til að ætla að það orsaki jarðskjálfta sagði fræðingurinn og glotti í laumi.
Tappi undir kvikuþrónni? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Surtsey + Hekla 47 jafnast á við það sem nú er í bergganginum
27.8.2014 | 13:06
Ég man glöggt eftir því í Vestmannaeyjum að þeir höfðu í nokkuð langan tíma verið að þrasa um að það væri ekki til nægur vikur til þess að undirbyggja göturnar. Kemur þá ekki þetta líka gos og síðan hafa menn lítið rætt um skort á slíku.
Nú er það spurning hvað náttúran gerir. Í vor hrundi þarna heil fjallshlíð við Öskju og var nokkur eftirsjá í henni. Gífurlegt magn glóandi kviku stefnir nú hraðbyri í átt að Öskju og með sama áframhaldi verður aldeilis bætt fyrir það magn sem hrundi niður. Þetta er svona svipað og þegar málari tekur sig til og sparslar í götin, nema þessi er með dulítið mikið spartls með sér. Síðastliðinn sólarhring jókst kvikumagnið um 50 milljónir rúmmmetra eða 500 rúmmetra á sekúndu.
Já, og það sem nú þegar er í bergganginum er jafnmikið ef ekki meira en allt það sem kom úr Heklu 1947 + allt það sem kom upp í Surtseyjargosinu.
Veldur verulegum spennubreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Auðvitað á náttúran ekkert með að haga sér svona
26.8.2014 | 21:12
Við verðum auðvitað að fá bætur. Hér hefur náttúran hreinlega lagt okkur í einelti í sumar sagði Tóti tindilfætti í viðtali. Við Tindfætlingar rekum hér ferðamennsku en náttúran hefur tekið af okkur völdin og rekið ferðamenn samstundis til baka.
Skemmst er að minnast þess þegar náttúran hrinti heilu fjalli ofan niður í Öskju og nú kemur bara hraun æðandi neðanjarðar og hvert annað en hingað í Öskju. Hvers eigum við að gjalda sagði Tóti og sendi tölvupóst til ríkisstjórnarinnar þar sem hann kvartaði undan þessum ágangi náttúruaflanna og tvísté þess á milli hreinlega óviss um það hvort það væri einhverja hreyfingu að sjá milli fóta hans, en þeir sem standa á sprungu mega eiga von á því hvenær sem er.
Skoða möguleikann á bótum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að grafa sína eigin gröf
26.8.2014 | 14:44
Þeir eru nú fjölmargir á jörðinni sem leggja nótt við dag að grafa sína eigin gröf. Á Gazasvæðinu hafa vígamenn viðurkennt að hafa handtekið nokkra ísraelska unglingspilta í vor og drepið þá. Svarið: Sprengjuregn á þeirra eigin konur og börn.
Yfir Úkraínu var skotin niður farþegaflugvél og þar magnast nú væringar m.a. vegna umræðna um það hver hafi átt sökina.
Þráttað er um hvort lestir vörubíla með hjálpargögn séu svikráð af hálfu Rússa. Á meðan gögnin berast ekki til fólksins deyr fólk sem þessi gögn gætu bjargað.
Og Islamistar sem umkringja borgir þar sem búa tugir þúsunda saklausra kristinna. Lífið er murkað úr mörgum og Vesturveldin hika við að skipta sér af, en þá ræna þeir m.a. blaðamanni og skera hann á háls. Forseti Frakklands æðir heim úr sumarfríi og segir að nú þurfi að taka á þessum mönnum.
Svo sannarlega taka menn í það minnsta grafir fyrir sitt eigið fólk og kannski sjálfa sig að lokum.
Einu sinni hefði þetta verið orðað svo að þessum mönnum væri ekki sjáfrátt.
Samið um vopnahlé á Gaza | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þið eruð einmitt að ganga of langt
26.8.2014 | 12:14
Eineltið í garð Hönnu Birnu á sér fá fordæmi. Dag eftir dag hjakka fréttamenn á því sama á milli þess sem þeir telja niður í gos. Hanna Birna hefur ekki gert nokkrum manni neitt í þessu svokallaða lekamáli. Fyrir nú utan það að það er nú ekkert þjóðarmorð, þótt rætt sé um einhvern útlending. Sumir eru svo hræðilega fastir á því að útlendingar séu heilagir og þá beri að meðhöndla sem slíka.
Þjóðarsálin vill bara jafnrétti, það er nú ekki flóknara en það. En Hanna Birna á sama rétt á þessu jafnrétti eins og einhver útlendingur, sem talað var um í sumar og enginn veit í raun hvað var athugavert við að nefna hann á nafn.
Eruð þið ekki að ganga of langt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er dýraríkið að verða vitlaust?
26.8.2014 | 09:11
Hér les maður um maðka sem aldrei áður hafa fundist hér á landi. Maðkar þessir eru eldsnöggir í hreyfingum og komu finnanda sínum mjög á óvart.
Það sama má raunar segja um menn sem fyrstir áttuðu sig á því að það væri virkilega ekki missýn að það væri blár lax á ferðinni í Elliðaánum.
Nú og í gær tók makríll upp þá furðulegu hegðun að drepa sig sjálfur og leggja í ís. Það sem ég á við er að hann synti inn í ískalt lón, en hann þolir alls ekki slíkan kulda. Í öðru lagi þolir hann ekki ferskvatn og þá súrefnismettun, sem þar er að finna. Viðbrögð makrílsins voru ekki þau að snúa við heldur gengu þeir hreinlega á land innan um jakana.
Eins og Stefán heitinn Júlíusson sagði: Það er margt í mörgu í maganum á Ingibjörgu.
Slengjast til með snöggum hnykkjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)